Fjármál og rekstur

 

Hagstofa Íslands var rekin með 28,9 milljóna kr. (m.kr.) tekjuhalla árið 2020 en með 20,8 m.kr. halla árið áður. Þrátt fyrir halla var reksturinn innan fjárheimilda bæði árin þegar tekið er tillit til uppsafnaðra fjárheimilda frá fyrri árum. Neikvæð afkoma skýrist einkum af tímabundnum rekstrarútgjöldum vegna manntals í samræmi við áætlanir og kostnaði við öflun sértekna. Sértekjur Hagstofunnar voru töluvert hærri en árið áður og námu samtals 295 m.kr.

Elsa Björk Knútsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs.

Elsa Björk Knútsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs.

 

 

Tekjur

Heildartekjur Hagstofu Íslands árið 2020 námu 1.764 m.kr. og jukust um 9,3% frá fyrra ári. Framlag úr ríkissjóði hækkaði úr 1.428 í 1.468,7 m.kr. eða um 2,8%. Þar af nam fjárfestingaframlag 20,5 m.kr. og tekjufærsla á móti afskriftum nam 19,1 m.kr. Sértekjur jukust talsvert á árinu og námu 295,2 m.kr. sem er hækkun um tæplega 110 m.kr. eða 59,3%. Aukningu í tekjum má einkum rekja til samninga við Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

Skipting sértekna Tekjur
Styrkir vegna samninga við Eurostat 128,9 m.kr.
Seld þjónusta 80,5 m.kr.
Þjónustusamningar vegna kjaratölfræði       61,2 m.kr.
Sala hagskýrslna og aðrar tekjur 24,6 m.kr.
 

Skipting á sértekjum í milljónum króna

 
 

Rekstrargjöld

Heildargjöld ársins fyrir fjármagnsliði námu 1.791 m.kr. með afskriftum en gjöld Hagstofunnar jukust um 157 m.kr. á milli ára eða um 9,6%. Stærsti útgjaldaliður Hagstofunnar var sem fyrr laun og launtengd gjöld. Launakostnaður hækkaði um 155,7 m.kr. á milli ára sem nemur 11,4% hækkun. Laun og launtengd gjöld voru 84% af heildarútgjöldum stofnunarinnar. Hússnæðiskostnaður var annar stærsti útgjaldaliðurinn og nam hann 6,6% af heildarkostnaði.

Skipting gjalda Kostnaður
Launatengd gjöld 1.517,8 m.kr.
Húsnæðiskostnaður 118,8 m.kr.
Aðkeypt þjónusta 110,0 m.kr.
Afskriftir 19,1 m.kr.
Almenn rekstrargjöld 17,3 m.kr.
Ferðakostnaður, námskeið og fundir       6,4 m.kr.
Fjármagnsgjöld 1,8 m.kr.
Verkkaup 1,7 m.kr.

Bókfærð eignakaup

Fjárfestingaframlag ársins var 20,5 m.kr. Eignakaup eru færð til eignar og afskrifuð yfir líftíma eignar. Kaupverð varanlegra rekstrarfjármuna nam 20,4 m.kr. og afskriftir námu 19,1 m.kr.

 

Skipting gjalda í milljónum króna

 

Upplýsingatækni

 

Nýtt stjórnkerfi

Tekið var í notkun nýtt stjórnkerfi á vegum upplýsingatæknideildar í upphafi ársins sem hefur það hlutverk að fylgja eftir stefnumótun Hagstofunnar fyrir árin 2020-2025.

Bætt þjónusta og nýr búnaður

Áhersla upplýsingatæknideildar var annars vegar á það að bæta innri þjónustu Hagstofunnar og hins vegar að skipta út gömlum búnaði í upplýsingatækni fyrir nýjan og sjálfvirkan búnað.

Til þess að bæta innri þjónustu setti upplýsingatæknideild af stað þjónustukönnun á meðal starfsmanna, bæði í þeim tilgangi að kanna hversu ánægðir starfsmenn væru með þjónustuna og einnig til þess að greina betur með hvaða hætti væri best að forgangsraða umbótavinnu deildarinnar. Þjónustukönnunin var gerð bæði í upphafi árs og um miðbik ársins til þess að fylgjast vel með umbótavinnunni.

Seinna markmiðið, að skipta út gömlum búnaði, hófst á því að skipta út tölvukosti í úthringiveri Hagstofunnar enda var fyrri búnaður kominn vel til ára sinna. Um svipað leyti var skipt um símkerfi stofnunarinnar.

Fjarvinnutengingar

Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á áætlanir upplýsingatæknideildar. Skipuleggja þurfti tengingar vegna fjarvinnu fyrir starfsmenn Hagstofunnar nánast fyrirvaralaust.

Allir starfsmenn Hagstofunnar, að frátöldum starfsmönnum í móttöku, höfðu á þeim tíma fengið fartölvur til notkunar í störfum sínum. Kom upplýsingatæknideild á tengingu fyrir fjarvinnu fyrir alla starfsmenn og útvegaði móttökunni fartölvur svo hægt væri að veita þjónustu í gegnum síma þrátt fyrir að húsnæði stofnunarinnar væri lokað.

Einnig setti upplýsingatæknideild upp fjarfundalausnir sem starfsmenn gátu nýtt til þess að vinna saman í fjarvinnunni. Var fjarfundaherbergi nýs fjarfundabúnaðar, sem settur hafði verið upp í janúarmánuði til þess að auðvelda samvinnu við Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, nýtt fyrir fjarvinnuna.

Pólstjörnuverkefnið

Hinn 1. júni 2018 keypti fjármála- og efnahagsráðuneytið, fyrir hönd A-hluta stofnana ríkisins, Microsoft-hugbúnaðarleyfi fyrir skrifstofuumhverfi. Verkefnið, sem snýr að þessum samrekstri Microsoft-umhverfisins hjá opinberum aðilum, fékk nafnið Pólstjarnan.

Haustið 2020 var skipað sérstakt Pólstjörnuteymi á Hagstofunni sem fékk það hlutverk að greina mögulegar leiðir til innleiðingar á Microsoft 365 hjá stofnuninni. Hópurinn gerði drög að innleiðingaráætlun með það fyrir augum að hin nýju kerfi og forrit sem fylgja Microsoft-umhverfinu nýtist sem hagkvæmast og best í starfsemi Hagstofunnar.

Innleiðingunni mun fylgja upptaka Outlook/Exchange-póstforrits og -netþjóns og notkun á Teams-fundar- og teymisverkfærinu. Innleiðingin hefst að vori 2021 þar sem upptaka Outlook/Exchange verður í forgangi.

Nýr innri kerfisvefur

Um sumarið útfærði upplýsingatæknideild búnað til þess að auðvelda hagskýrslugerð út frá ársreikningum Skattsins. Ný leið, svokallaðir hnappsreikningar, var ekki til staðar í eldri búnaði og því þurfti aðra nálgun fyrir verkefnið.

Skömmu síðar voru gerðar tilraunir með að safna gögnum í gegnum nýja og notendavænni vefsíðu. Kerfið mun leysa af úrelt kerfi sem hefur valdið notendum sem skila inn gögnum til Hagstofunnar miklum vandræðum. Fyrstu safnanir sem voru settar upp í nýja kerfinu gáfu góða raun. Í framhaldinu verða fleiri safnanir fluttar yfir í nýja kerfið.

Með nýju kerfunum fyrir gagnaskil annars vegar og meðhöndlun ársreikninga hins vegar, auk kerfis fyrir meðhöndlun gagnamiðlunar til notenda, myndaðist nýr innri kerfisvefur. Sá vefur hefur þann kost að nú getur starfsfólki á einum stað komist í þau vefviðmót sem það þarf að vinna í hverju sinni.

Önnur verkefni

Á meðal annarra helstu verkefna upplýsingatæknideildar á árinu var flutningur gagna af eldri skráaþjóni yfir á nýrri þjón sem lokið var við um haustið. Eldri þjónninn var á þeim tíma orðinn 17 ára gamall en hafði þjónað stofnuninni dyggilega. Fyrr á árinu hafði klárast flutningur af álíka gömlum gagnagrunnsþjóni yfir á nýrri þjón.

Til þess að tryggja betur innviði og hugbúnaðarlausnir í rekstri setti upplýsingatæknideild upp skoðanleika í rekstri. Enn fremur var leitarvélin á meginvef Hagstofunnar betrumbætt á árinu. Þá kom upplýsingatæknideild að innleiðingu á nýju aðgangskerfi fyrir húsnæði stofnunarinnar í lok ársins. Auk alls þessa kom deildin að ýmsum öðrum verkefnum sem unnið verður áfram með á næstu árum þótt þau hafi ekki klárast á árinu.

 
Frá vinstri: Tryggvi Björgvinsson og Árni Steingrímur Sigurðsson, báðir í upplýsingatæknideild.

Frá vinstri: Tryggvi Björgvinsson og Árni Steingrímur Sigurðsson, báðir í upplýsingatæknideild.

Ólafur Jón Björnsson í upplýsingatæknideild.

Ólafur Jón Björnsson í upplýsingatæknideild.