Gagnasöfnun

 

Gagnasöfnun er ein af grunnstoðum hagskýrslugerðar og voru tæplega 50 gagnasafnanir í gangi hjá Hagstofunni á árinu 2020. Hagstofan leggur áherslu á að draga úr svarbyrði einstaklinga og fyrirtækja og notar í því skyni stjórnsýsluskrár þar sem þess er kostur. Stofnunin stendur einnig fyrir eigin gagnasöfnun á meðal einstaklinga, heimila, stofnana og fyrirtækja í þeim tilgangi að geta staðið við lagalegar skuldbindingar um hagskýrslugerð.

Spyrlar í úthringiveri.

Spyrlar í úthringiveri.

 
Hlutfall þátttakanda og svörun í rannsóknum X2.png

Gagnasöfnun þurfti að takast á við nýjar áskoranir vegna kórónuveirufaraldursins líkt og öll fyrirtæki og heimili landsins og tókst það án þess að svörun í rannsóknum eða gagnaskil fyrirtækja minnkaði eða drægist saman. Spyrlar unnu á þrískiptum vöktum og var enginn samgangur á milli vakta til þess að tryggja sóttvarnir. Aðrir starfsmenn unnu fjarvinnu og með góðum fjarvinnubúnaði og -skipulagi var hægt að halda öllum gagnasöfnunum gangandi án nokkurra hnökra.

Hagstofan stendur að umfangsmiklum úrtaksrannsóknum ár hvert. Á árinu 2020 var gert sérstakt átak til þess að bæta svörun í einstaklings- og heimilisrannsóknum og tókst að auka svörun að jafnaði um tæp 5 prósentustig á milli ára. Heildarföldi þátttakenda í úrtaksrannsóknum um hagi einstaklinga og heimila var tæplega 30 þúsund á árinu eða um 10% landsmanna 16 ára og eldri. Svörun í þessum rannsóknum var að jafnaði um 64%.

Umfangsmestu einstaklings- og heimilisrannsóknir Hagstofunnar eru rannsókn á stöðu fólks á vinnumarkaði og rannsókn á útgjöldum heimilanna en báðar þessar rannsóknir eru framkvæmdar allt árið um kring. Þá rannsakar Hagstofan lífskjör í landinu árlega og notkun einstaklinga og heimila á tækjabúnaði og neti.

Fjórar úrtaksrannsóknir á meðal fyrirtækja voru gerðar á árinu; rannsókn á rannsóknar- og þróunarstarfi fyrirtækja, rannsókn á upplýsingatækninotkun, rannsókn á lausum störfum og rannsókn á þjónustuviðskiptum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Hagstofan stendur einnig að víðtækri gagnasöfnun á meðal fyrirtækja, annarra rekstraraðila og sveitarfélaga. Þar á meðal er söfnun gagna fyrir launarannsókn, söfnun gagna í upplýsingaveitu sveitarfélaga, söfnun upplýsinga um gistinætur, söfnun vegna þjónustuviðskipta við útlönd, söfnun vegna vísitölu neysluverðs og byggingarkostnaðar, söfnun ýmissa gagna fyrir þjóðhagsreikninga og um starfsemi skóla, mennta- og menningarstofnana.

Á árinu voru gerðar tilraunir með að safna gögnum í gegnum nýtt og notendavænna vefskilakerfi. Fyrstu safnanirnar sem voru settar upp í kerfinu gáfu góða raun og verða fleiri safnanir fluttar í nýja kerfið á árinu 2021.

 
Spyrlar í úthringiveri.

Spyrlar í úthringiveri.