Mannauður

 

Í lok árs 2020 störfuðu 126 fastráðnir starfsmenn hjá Hagstofunni í 122 fullum stöðugildum. Kynjahlutföll voru nokkuð jöfn en 45% starfsmanna voru konur og 55% karlar. Hlutfall háskólamenntaðra var 87% en það er svipað hlutfall og verið hefur undanfarin ár. Þá störfuðu á árinu 72 lausráðnir spyrlar sem unnu um 6,9 ársverk við innsöfnun gagna sem var nokkuð minna en árið áður.

Starfsmenn bollaleggja.

Starfsmenn bollaleggja.

 

Tveir starfsmenn létu af störfum á árinu vegna aldurs. Rósmundur Guðnason lét af störfum þann 15. febrúar og Kristinn Karlsson um mitt ár, báðir eftir langa og giftusama starfsævi.

Óvenjulegt ár

Hjá Hagstofunni líkt og víða annar staðar komu upp fjölbreyttar mannauðsáskoranir eftir því sem sóttvarnir urðu strangari. Ákaflega vel gekk við að færa starfsemina yfir í fjarvinnu og þar hjálpaði mjög að stofnunin hafði öll verið fartölvuvædd fyrir um tveimur árum.

Segja má að markmið sóttvarnaaðgerða innan Hagstofunnar hafi verið þríþætt og jafnframt öll jafn mikilvæg. Fyrsta markmiðið var að tryggja heilsu og velferð starfsmanna þannig að þessar krefjandi aðstæður myndu sem minnst bitna á þeim. Annað markmiðið var að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á rekstur Hagstofunnar og viðhalda sömu gæðum og tímanleika við útgáfu hagtalna. Að lokum var markmið Hagstofunnar að leggja sitt af mörkum til þess að lágmarka útbreiðslu faraldursins og með því sýna samstöðu í verki með samfélaginu.

Félagslíf

Starfsmannafélag Hagstofunnar átti ærið verk fyrir höndum við að halda uppi starfsandanum á árinu enda settu fjöldatakmarkanirnar strik í reikninginn. Hápunktur starfsársins er iðulega árshátíðin en henni var aflýst líkt og annars staðar. Félagið fékk þó svigrúm til þess að athafna sig eftir fyrstu bylgju faraldursins og var sá tími nýttur til hins ítrasta. Þá var farið í göngur upp á Akrafjall og um Reykjanesið, haldin var vegleg grillveisla og ísbílnum boðið í heimsókn. Áður en fyrsta bylgjan skall á náðist einnig að halda pókerkvöld og barsvar.

Starfsmannafélagið hélt þó uppi þéttri dagskrá af fjarviðburðum og má þar nefna fjar-barsvar, bingókvöld, heilsuviku, bókakynningar með rithöfundum og einnig stóð félagið að því að senda glaðning heim til starfsmanna.

 

Ólafur Hjálmarsson afhendir Rósmundi Guðnasyni gjöf frá Hagstofunni í tilefni starfsloka hans og sjötugsafmælis.

Kristinn Karlsson sker kveðjutertuna.

Starfsmenn Hagstofunnar gengu á Akrafjall þann 10. júní í blíðskaparveðri og voru 25 manns í ferðinni.