Skýrsla stjórnar

 

Kórónuveirufaraldurinn hafði talsverð áhrif á starfsemi Hagstofunnar. Framkvæmdastjórn Hagstofunnar hélt samtals 31 fund sem var óvenju mikið miðað við fyrri ár. Flestir fundanna fóru fram um fjarfundarbúnað og má rekja fjölgun funda til viðbragða við faraldrinum.

Stjórn Hagstofu Íslands. Frá vinstri: Björn Rúnar Guðmundsson, Ólafur Arnar Þórðarson, Hrafnhildur Arnkelsdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Böðvar Þórisson og Elsa Björk Knútsdóttir.

Stjórn Hagstofu Íslands. Frá vinstri: Björn Rúnar Guðmundsson, Ólafur Arnar Þórðarson, Hrafnhildur Arnkelsdóttir, Ólafur Hjálmarsson, Böðvar Þórisson og Elsa Björk Knútsdóttir.

 

Áhrif kórónuveirunnar á starfsemi Hagstofunnar

Föstudaginn 6. mars 2020 var tekin ákvörðun um að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta þýddi að unnið var eftir gátlista um neyðarstig í viðbragðsáætlun Hagstofunnar sem miðaði að því að lágmarka áhrif faraldursins á starfsemi og þjónustu stofnunarinnar.

Þann 24. mars var síðan tekin ákvörðun á fundi framkvæmdastjórnar um að loka afgreiðslu Hagstofunnar. Eftir það unnu flestir starfsmenn heiman frá en um 15-20 manns voru að jafnaði starfandi í húsnæði stofnunarinnar. Hagstofan var svo opnuð aftur miðvikudaginn 13. maí.

Þann 5. október var Hagstofunni lokað í annað skiptið á árinu eftir að kórónuveiran hafði sótt í sig veðrið með haustinu. Fjöldi starfsmanna í húsinu var takmarkaður verulega og flestir völdu því að vinna heima. Fyrirkomulagið með fjarvinnu gekk framar vonum og þegar upp var staðið kom í ljós að útgáfum hafði fjölgað verulega á árinu sem verður án efa kennt við kórónuveiruna.

 
Fjarfundur.

Fjarfundur.

 

Félagsmálatölfræði

 
 

Vinnumarkaðsrannsóknir og mælingar á vinnutíma

Laus störf voru birt í auknu niðurbroti eftir atvinnugreinum á árinu. Um er að ræða upplýsingar sem fyrst birtust árið 2019 og byggja á sérstakri ársfjórðungslegri rannsókn á lausum störfum á meðal lögaðila.

Unnið var að breytingum á vinnumarkaðsrannsókn vegna nýrrar rammareglugerðar um félagsmálatölfræði og taka breytingar gildi frá og með árinu 2021. Helstu breytingar sem löggjöfin felur í sér eru; nýjar spurningar um stöðu á vinnumarkaði og breyttar mælingar á vinnutíma, þýði rannsóknar breytist úr 16-74 ára til 16-89 ára auk þess sem breytingar verða á vog og mati á mannfjölda.

Unnið var að umbótum á mælingum vinnutíma sem byggja á svörum við aukaspurningum um vinnutíma í vinnumarkaðsrannsókn sem lagðar voru fyrir haustið 2019 til þess að fá betri upplýsingar um unnar stundir. Greinargerð um niðurstöður var birt í desember og kynnt á notendafundi. Niðurstöðurnar nýtast við breytingar á vinnutímamælingum í vinnumarkaðsrannsókn.

Þróun hagtalna um tekjur á grundvelli skattagagna

Áfram var unnið að þróun hagtalna um tekjur á grundvelli skattagagna. Til þess að mæta aukinni þörf fyrir tímanlegar vísbendingar um tekjur einstaklinga voru kynntar nýjar tölur um mánaðarlegar staðgreiðsluskyldar launatekjur eftir atvinnugreinum og sveitarfélögum auk skiptingu staðgreiðsluskyldra greiðslna eftir sveitarfélögum.

Hagnýting launatölfræði við undirbúning og eftirfylgni með kjarasamningum

Þróun og tímanleika launatölfræði var forgangsraðað niður á árinu til þess að geta mætt þörfum kjaratölfræðinefndar þar sem unnið var að verkefnum sem taka mið af þörfum nýstofnaðrar kjaratölfræðinefndar. Kjaratölfræðinefnd felur í sér samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag fyrir undirbúning og eftirfylgni með kjarasamningum.

Nefndinni er meðal annars ætlað að gefa út skýrslu tvisvar á ári og stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Hagstofa Íslands á fulltrúa í nefndinni auk þess sem margir starfsmenn stofnunarinnar vinna náið með henni.

Rannsókn á launamun karla og kvenna

Í lok október 2020 var undirritaður samningur við forsætisráðuneytið um rannsókn á launamun karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður munu liggja fyrir í lok annars ársfjórðungs 2021.

Samstarf við vísindasamfélagið

Hagstofan hóf samstarf við vísindasamfélagið um rannsókn á áhrifum jafnlaunavottunar en á árinu var aukinni eftirspurn eftir örgögnum (e. microdata) mætt auk þess sem unnar voru fjölmargar sérsniðnar sérvinnslur til þess að sinna þörfum notenda.

Innleiðing hafin á nýju starfaflokkunarkerfi

Innleiðing á nýju starfaflokkunarkerfi sem byggir á alþjóðlegum staðli, ISCO08, komst á gott skrið á árinu og er fyrsta útgáfa nær tilbúin fyrir samráð við notendur. Starfaflokkun er grundvöllur að opinberri hagskýrslugerð um íslenskan vinnumarkað en hefur einnig víðtæka skírskotun í samfélaginu svo sem við ýmsar launagreiningar.

Undirbúningur fyrir manntal 2021

Manntal og húsnæðistal 2021 hófst formlega á síðasta ári en viðmiðunardagur er 1. janúar 2021. Með manntali er átt við samtíma uppgjör á heimilishögum, búsetu og atvinnu íbúa auk upplýsinga um húsnæði og búsetu landsmanna. Um er að ræða stafrænt manntal sem byggir á fjölbreyttum rafrænum heimildum um íbúa og híbýli á Íslandi. Stefnt er að árlegu manntali ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu frá árinu 2024 og verður unnið að undirbúningi þess samhliða manntali 2021.

Verkefni um fólksflutninga á milli Norðurlandanna

Lokið var við norrænt verkefni um áhrif fólksflutninga á milli Norðurlandanna sem hófst árið 2017 en verkefnið var framlengt út árið 2020. Stefnt er að útgáfu í ársbyrjun 2021.

Menntun, innflytjendur og ungmenni

Unnið var að bættum tímanleika menntunartalna auk þess sem framboð talna var aukið þar sem birtar voru tölur um brautskráningarhlutfall og brotthvarf af framhaldsskólastigi eftir aldri innflytjenda. Á árinu voru í fyrsta sinn birtar upplýsingar sem tilraunatölfræði um stöðu ungmenna og um hlutfallslegt misræmi menntunar.

Þróun hagrænna mælikvarða fyrir menningu og miðla

Árið 2020 var unnið að frekari þróun hagrænna mælikvarða fyrir menningu og miðla. Birtar voru tölur um vinnumarkaðsstöðu mismunandi menningargreina auk þess sem drög voru lögð að menningarvísasíðu. Vegna áhrifa heimsfaraldurs á menningarstarfsemi þurfti að fresta áætlaðri úrtaksrannsókn á meðal almennings þar sem kanna átti þátttöku í menningu og listum, notkun á miðlum og áhugamál en á hinum Norðurlöndunum hafa sambærilegar rannsóknir tíðkast síðustu áratugi. Unnið var í nánu samstarfi við notendur og alþjóðlegt samstarf fest frekar í sessi.

Þróun jafnréttisvísa og vísa um börn

Unnið er að þróun jafnréttisvísa með áherslu á hvaða gagnalindir eru tiltækar og hvaða gögnum þarf að safna. Unnið verður að frekari þróun á hagtölum um börn í samstarfi við umboðsmann barna og var minnisblaði um barnavísa skilað til forsætisráðherra. Fulltrúi Hagstofunnar tók sæti í stýrihópi félagsmálaráðuneytisins um mælaborð um stöðu barna.

Úrslit og framkvænd forsetakosninga

Gerð var grein fyrir framboðum, úrslitum og framkvæmd forsetakosninga 27. júní 2020.

Rannsókn á upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga á Íslandi

Í mars 2020 voru birtar niðurstöður rannsóknar á upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga á Íslandi en um er að ræða úrtaksrannsókn sem byggir á samevrópskum aðferðum. Niðurstöðurnar verða samanburðarhæfar við niðurstöður annarra landa Evrópu og yfir tíma innanlands þar sem rannsóknin hefur verið framkvæmd hérlendis, með hléum, frá árinu 2002. Einnig voru birtar niðurstöður um notkun á menningu sem fólk nálgast á netinu.

Undirbúningur velsældarvísa

Hagstofan hóf undirbúning að vinnslu og miðlun á velsældarmælikvörðum í samstarfi við forsætisráðuneytið. Áætlað er að miðla velsældarvísum með vísasíðu Hagstofunnar þar sem nú þegar eru birtir félagsvísar og heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna.

Mat á færniþörf á íslenskum vinnumarkaði

Haustið 2020 hófst vinna við mat á færniþörf á íslenskum vinnumarkaði. Verkefnið miðar að því að hanna spálíkan sem byggir á fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar. Verkefnið byggir á skýrslu sérfræðingahóps sem var gefin út árið 2018 og skýrslu hagfræðistofnunar Háskóla Íslands en verkefnið er fjármagnað sameiginlega af forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

 
Kristín Arnórsdóttir á félagsmálasviði.

Kristín Arnórsdóttir á félagsmálasviði.

Frá vinstri: Guðjón Hauksson og Ólafur Már Sigurðsson, báðir á félagsmálasviði.

Frá vinstri: Guðjón Hauksson og Ólafur Már Sigurðsson, báðir á félagsmálasviði.

 

Fyrirtækjatölfræði

 
 

Tölfræði um ferðaþjónustu

Vaxandi áhugi hefur verið á tölfræði um ferðaþjónustu með auknu vægi atvinnugreinarinnar og áhrifum hennar á hagkerfið. Ýmis tölfræði hefur verið þróuð og birt á síðustu misserum og var nokkrum tilraunabirtingum bætt við á árinu 2020 til þess að varpa tímanlegri mynd á áhrif kórónuveirufaraldursins á greinina.

Rannsókn á útflutningshneigð og samkeppnishæfni á Norðurlöndum

Á árinu 2020 voru birtar niðurstöður um útflutningshneigð og samkeppnishæfni helstu atvinnugreina á Norðurlöndum sem byggði á samnorrænni rannsókn hagstofa Norðurlanda. Ákveðið var að halda áfram með rannsóknina til þess að varpa mynd á áhrif kórónuveirufaraldursins á atvinnugreinar og samkeppnishæfni Norðurlandanna.

Rannsókn á nýjungavirkni og nýsköpun fyrirtækja

Á árinu 2020 var gerð rannsókn á útgjöldum fyrirtækja og stofnana til rannsóknar- og þróunarstarfs. Niðurstöður voru birta síðla árs 2020 en rannsóknin er framkvæmd annað hvert ár. Jafnframt var gerð rannsókn á notkun fyrirtækja á upplýsingatækni en rannsóknirnar fylgja alþjóðlegum stöðlum í samræmi við aðferðafræði OECD og Eurostat.

Umhverfistölfræði og umhverfisreikningar

Á undanförnum árum hefur umhverfistölfræði verið byggð upp og gögnum skilað til Eurostat og upplýsingar birtar á vef Hagstofunnar. Verkefnið skiptist í nokkra hluta en á síðustu misserum hefur farið talsverð vinna í að byggja upp tölfræði um losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands, orkuflæðireikninga, efnisflæðireikninga og útgjöld og fjárfestingar til umhverfisvænna þátta.

Á árinu var unnið að frekari uppbyggingu á líkanagerð þannig að birta mætti tímanlegri upplýsingar og hófust slíkar birtingar á árinu. Þannig voru birtar ársfjórðungslegar upplýsingar um útblástur gróðurhúsalofttegunda á árinu. Einnig var unnið í tölfræði tengdri sköttum á útblástur og mengun og henni skilað til Eurostat. Nokkrar útgáfur af tilraunatölfræði tengdri umhverfismálum voru þróaðar og birtar á árinu. Má þar m.a. nefna tölfræði um áhrif kórónuveirufaraldursins á notkun jarðeldsneytis.

Tölfræði um rekstrar- og efnahagsyfirlit atvinnugreina

Árlega eru birtar heildstæðar tölur yfir rekstrar- og efnahagsyfirlit atvinnugreina. Tölur hafa nú verið birtar aftur til ársins 2002 til og með 2019. Unnið hefur verið að því að auðga þessa tölfræði í samvinnu við helstu notendur hennar og svara þannig áfram spurn samfélagsins eftir betri tölfræði um atvinnugreinar. Á árinu 2020 hefur verið unnið sérstaklega í frekara niðurbroti á rekstrarupplýsingum og lýðfræði atvinnugreina.

Skammtímahagvísar atvinnugreina

Á árinu 2020 var unnið að ýmsum nýjum birtingum á skammtímatölfræði og skammtímahagvísum atvinnugreina (e. Short Term Statistics; STS) en vaxandi áhugi er á tímanlegum upplýsingum um þróun atvinnugreina og áhrifa kórónuveirufaraldursins á þær.

Sjávarútvegs- og landbúnaðartölfræði

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að byggja upp framleiðslu á landbúnaðartölfræði þannig að bæði innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar verði uppfylltar. Áfram verður unnið að því á árinu 2021, en þegar hefur tekist að uppfylla nær allar alþjóðlegar skuldbindingar. Jafnframt var reglulega birt tölfræði um afla, aflaverðmæti og ráðstöfum afla á árinu.

 
Hjörvar Pétursson á fyrirtækjasviði.

Hjörvar Pétursson á fyrirtækjasviði.

Magnús Kári Bergmann á fyrirtækjasviði.

Magnús Kári Bergmann á fyrirtækjasviði.

 

Efnahagstölfræði

 
 

Vöruviðskipti við útlönd á vikugrundvelli

Útgáfutíðni vöruviðskipta í utanríkisverslun var aukin tímabundið í maí til þess að mæta þörf fyrir tíðari tölfræði um framvindu efnahagsmála vegna kórónuveirufaraldursins. Samhliða hefðbundinni birtingu á mánaðarfresti hófst birting vikulegra talna um út- og innflutning 2019-2020, flokkuðum eftir helstu vöruflokkum.

Endurskoðun á tölum utanríkisviðskipta

Mikil vinna var lögð í endurskoðun á tölum um utanríkisviðskipti, bæði vöru- og þjónustuviðskipti, á árinu. Tvö markmið vógu þyngst við endurskoðun vöruviðskipta, annars vegar að auka gæði á eldri tímaröðum og hins vegar að uppfæra gögn miðað við staðal vöruviðskipta, IMTS 2010, og fyrri útgáfur. Þjónustuviðskipti voru endurskoðuð, annars vegar með tilliti til flokkunarkerfis og hins vegar bættrar aðferðafræði sem fólst í endurskoðun á seðlaveltu og flokkun viðskipta með greiðslukortum.

Alþjóðlegur verðsamanburður

Birt var talnaefni um verðsamanburð í Evrópu (e. Purchasing Power Parity) í fyrsta sinn á vefsíðu Hagstofunnar árið 2020. Hagstofa Íslands tekur virkan þátt í samstarfi hagstofa í Evrópu um mælikvarða af þessu tagi sem gera mögulegt að bera saman efnahagstölfræði, þ.m.t. þjóðhagsreikninga, á milli Evrópuríkja.

Skýrsla um aðferðafræði við útreikning á vísitölu neysluverðs

Lokið var við úttekt á aðferðum við vísitölu neysluverðs og skilaði nefnd forsætisráðherra, sem falið var verkefnið, af sér skýrslu í júní 2020. Niðurstaðan var staðfesting á réttmæti þeirra aðferða sem eru notaðar í vísitölunni hvað varðar húsnæðisliðinn og meðhöndlun á bjaga.

Verðmælingar gengu vel þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn

Verðmælingar á vísitölu neysluverðs og öðrum verðvísitölum gengu vel á árinu 2020 þrátt fyrir sviptingar í efnahagslífi þjóðarinnar af völdum kórónuveiru. Þar munaði mikið um að verðmælingar fara mestmegnis fram með rafrænum hætti og að lokanir verslana og fyrirtækja voru ekki eins víðtækar og í mörgum öðrum Evrópulöndum auk þess sem margar verslanir juku við þjónustu sína í gegnum nýjar vefverslanir og heimsendingar.

Heildarendurskoðun á tímaröðum þjóðhagsreikninga 1995–2019

Með birtingu talnaefnis fyrir þriðja ársfjórðung 2020 voru samtímis birtar niðurstöður heildarendurskoðunar tímaraða þjóðhagsreikninga. Endurskoðunin var í samræmi við stefnu og leiðbeiningar Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, um reglulegar heildarendurskoðanir þjóðhagsreikninga og samræmda tímasetningu þeirra.

Endurskoðanir af þessu tagi gera Hagstofunni kleift að taka inn nýjar gagnaheimildir og breyttar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga með það að markmiði að viðhalda og auka gæði niðurstaðna. Í tengslum við slíkar endurskoðanir gefst einnig tækifæri til þess að aðlaga gagnaöflun og úrvinnslu að breytingum sem eiga sér stað í samfélaginu yfir tíma, t.d. breytingar í framleiðslu- og neysluháttum. Endurskoðunin nær til tímabilsins frá og með árinu 1995 til ársins 2019.

Endurskoðun geiraflokkunar fyrir fjármál hins opinbera 1998–2019

Samhliða birtingu talnaefnis um fjármál hins opinbera fyrir þriðja ársfjórðung 2020 birti Hagstofa Íslands niðurstöður heildarendurskoðunar tímaraða talnaefnis fyrir fjármál hins opinbera auk þess að endurskoða undirliggjandi geiraflokkun. Heildaráhrif endurskoðunarinnar á afkomu hins opinbera voru yfirleitt jákvæð en áhrifin koma einna helst fram í talnaefni um eignir og skuldir.

Áhrif breyttrar geiraflokkunar á skuldir hins opinbera eru umtalsverð og aukast þær að meðaltali um 35% árin 2017 til 2019 frá áður birtum niðurstöðum. Þessa aukningu má að stærstum hluta rekja til breyttrar flokkunar Íbúðalánasjóðs og þeirra stofnana sem tóku við starfsemi sjóðsins árið 2019.

 
Frá vinstri: Atli Páll Helgason, Björn Rúnar Guðmdundsson og Gunnar Axel Axelsson, allir á efnahagssviði.

Frá vinstri: Atli Páll Helgason, Björn Rúnar Guðmdundsson og Gunnar Axel Axelsson, allir á efnahagssviði.

Frá vinstri: Gyða Þórðardóttir og Jón Ævarr Sigurbjörnsson, bæði á efnahagssviði.

Frá vinstri: Gyða Þórðardóttir og Jón Ævarr Sigurbjörnsson, bæði á efnahagssviði.

Frá vinstri: Birna Rún Björnsdóttir og Fjóla Agnarsdóttir, báðar á efnahagssviði.

 

Þjóðhagsspár

Kórónuveirufaraldurinn hafði áhrif á útgáfu þjóðhagsspár árið 2020 og voru tvær útgáfur á árinu í stað þriggja að jafnaði. Veruleg óvissa var um stöðu og horfur hagkerfisins, sérstaklega á fyrri hluta ársins. Á vormánuðum var ljóst að forsendur fjármálaáætlunar voru brostnar og samþykkti Alþingi að fresta útgáfu hennar til haustsins. Vorútgáfa þjóðhagsspár Hagstofunnar er almennt notuð til grundvallar fjármálaáætlunar og var því ljóst að ekki yrði af þeirri útgáfu. Þjóðhagsspá var gefin út í júní og kom svo út samhliða fjármálaáætlun í byrjun október.

 
Bryndís Ásbjarnardóttir, rannsóknir og spár.

Bryndís Ásbjarnardóttir, rannsóknir og spár.

 

Tilraunatölfræði

Í apríl hóf Hagstofan útgáfu á tilraunatölfræði. Markmiðið var að bæta þjónustu stofnunarinnar með hraðari birtingu nýrrar tölfræði. Kórónuveirufaraldurinn kallaði á skjótari upplýsingar um hagtölur en ella og segja má að tilraunatölfræðin hafi svarað þeirri eftirspurn. Til dæmis má nefna birtingu á vikulegum gögnum um dána en í mörgum Evrópulöndum hækkaði dánartíðni verulega. Þegar upp var staðið voru útgáfur í þessum flokki 42 á árinu.

 
 

Samningur um upplýsingamiðlun

Samstarfssamningur um upplýsingamiðlun var undirritaður þann 25. febrúar á milli Hagstofu Íslands og Þjóðskrár Íslands. Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri og Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, undirrituðu samninginn í húsakynnum Hagstofunnar.

Tilgangur samningsins er að kveða á um með hvaða hætti samstarfi Hagstofunnar og Þjóðskrár um upplýsingagjöf og gagnamiðlun skuli vera háttað en stofnanirnar tvær hafa á liðnum árum átt farsælt samstarf.

 

Fremri röð frá vinstri: Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri og Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands. Aftari röð frá vinstri: Hrafnhildur Arnkelsdóttir, sviðsstjóri félagsmálasviðs Hagstofunnar, Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir, gæðastjóri Hagstofunnar, Guðni Rúnar Gíslason, deildarstjóri upplýsinga- og samskiptadeildar Þjóðskrár, og Björg Finnbogadóttir, lögfræðingur hjá Þjóðskrá.

 

Norrænn fundur fulltrúa heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Í lok janúar var haldinn fundur heimsmarkmiðafulltrúa norrænu hagstofanna. Fundurinn, sem stóð í tvo daga, var haldinn í húsakynnum Hagstofu Íslands og mættu fulltrúar allra Norðurlandanna. Auk þess sat fundinn Ásta Bjarnardóttir, verkefnastjóri verkefnisstjórnar heimsmarkmiðanna, frá forsætisráðuneytinu.

Hún kynnti m.a. fyrirkomulag innleiðingar heimsmarkmiðanna á Íslandi. Á fundinum var farið yfir helstu áskoranir og árangur hvers lands í söfnun og miðlun heimsmarkmiðatölfræði auk þess sem farið var yfir stöðu mála á alþjóðavísu en á árinu 2020 fór fram alsherjar endurskoðun á aðferðarfræði mælikvarða heimsmarkmiðanna.

Darri Eyþórsson sat fundinn fyrir hönd Hagstofunnar og upplýsti þátttakendur m.a. um reynslu og árangur af þróun á vísasíðu fyrir heimsmarkmiðin (e. National Reporting Platform) en Ísland er þriðja Norðulandaþjóðin til þess að opna slíka síðu gagngert til miðlunar á heimsmarkmiðatölfræði.

 

Þátttakendur á fundi heimsmarkmiðsfulltrúa norrænu hagstofanna í lok janúar.