Frá hagstofustjóra

 
 
Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri.

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri.

Árið 2020 var óvenjulegt ár. Frá því snemma á vormánuðum unnu flestir starfsmenn Hagstofunnar í fjarvinnu vegna aðgerða stjórnvalda til þess að sporna við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Hagstofan var tiltölulega vel undirbúin fyrir faraldurinn þar sem starfsmenn höfðu til afnota fartölvur og góðan aðgang að innviðum fyrir upplýsingatækni. Vel gekk að koma á heimatengingum og leysa tæknileg mál.

Áhrif faraldursins á efnahags- og félagsmál voru víðtæk og notendur hagtalna kölluðu eftir skjótari og ítarlegri upplýsingum um áhrifin. Hagstofan brást við með því að gefa út tilraunatölfræði, sem ekki lýtur sömu kröfum og önnur tölfræði, til þess að koma til móts við þarfir notenda. Þannig tókst að birta nýjar upplýsingar fyrr og tíðar en áður. Jafnframt gekk önnur framleiðsla samkvæmt birtingaráætlun og litlir sem engir hnökrar urðu á reglulegum útgáfum.

Við þessar sérstöku aðstæður fjölgaði birtingum um 15% frá fyrra ári og heimsóknum á vef fjölgaði einnig talsvert. En eitthvað hlaut að láta undan og tímabundið hefur gengið hægar en að var stefnt við að innleiða nýjungar og breytingar á innra starfi í samræmi við stefnumótun Hagstofunnar, sem fram fór á haustmánuðum 2019, enda óhægt um vik. Einnig voru fundir með notendum færri en áður og að sjálfsögðu fóru þeir fram í gegnum fjarfundarbúnað. Verður þráðurinn tekinn aftur upp þegar rofar til árið 2021.

Því er oft haldið fram að þegar vandi steðji að komi kostir fólks best fram. Það sýndi sig í samstöðu starfsmanna Hagstofunnar sem lögðu sig fram um að leysa tæknileg mál, birta nýtt efni og halda jafnframt ótrauðir áfram með þau verkefni sem fyrir lágu og leysa þau af metnaði. Eins og sjá má á skýrslu framkvæmdastjórnar hér á eftir var mikið um nýtt efni og talsverð aukning á framleiðslu hagtalna þrátt fyrir að nær allt starfsfólk ynni heima við.

Faraldurinn hefur breytt afstöðu okkar til fjarvinnu, fjarfunda og stafrænna lausna. Það sem áður þótti ólíklegt, eða fjarlægt, telst nú vera sjálfsagt og má fastlega gera ráð fyrir að þróunin verði fyrir vikið hraðari í átt að stafrænum lausnum og að notendur geti leyst sín mál á vefnum. Reyndar hefur hagskýrslugerðin, eins og flest önnur starfsemi, stefnt í þá átt á undanförnum árum og áratugum enda allt framleiðsluferlið meira eða minna stafrænt.

Rafrænar tengingar hafa árum saman verið í upplýsingakerfum fyrirtækja og opinberum skrám til að afla gagna og sífellt bætast við ný gögn sem má nýta í stað þess að leita beint til fyrirtækja eða almennings með könnunum. Sparar það öllum aðilum tíma og vinnu. Sú þróun mun verða enn hraðari með betri tækni og auknum skilningi á slíkum lausnum. Þá eru breytingar á vinnustöðum komnar til að vera þar sem fjarvinna verður algengari og fjarfundir munu áfram spara dýrmætan tíma og ferðakostnað auk þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Þrátt fyrir faraldurinn, og þá miklu röskun sem hann hefur valdið, er hægt að líta björtum augum til framtíðar og draga lærdóm af honum. Helsta ógnin við þessa þróun er stafrænt öryggi og það er áskorun að tryggja það sem best. Er þá einkum átt við vernd einstaklinga og fyrirtækja gegn óheimilli notkun upplýsinga, svikum, skemmdarverkum og ytri áföllum sem geta lamað heilu upplýsingakerfin og þar með atvinnugreinarnar eða jafnvel hagkerfin.

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri