Þjónusta og samstarf

 

Það er Hagstofunni mikið forgangsmál að eiga í góðum samskiptum við notendur hagtalna. Kórónuveirufaraldurinn hefur þó sett ákveðið strik í reikninginn í þeim efnum eins og víðar. Þannig hefur til að mynda reynst þrautin þyngri að halda hefðbundna notendafundi á meðan faraldurinn hefur geisað. Mikil áhersla var þó lögð á að lágmarka áhrif hans þar eins og annars staðar í starfsemi stofnunarinnar.

Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri stjórnsýslu og samstarfs.

Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri stjórnsýslu og samstarfs.

 

Notendahópar

Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn var einn rafrænn notendafundur haldinn á árinu 2020 um menningartölfræði sem tilraunaverkefni og þótti hann takast ljómandi vel. Fundurinn var óvenjulegur að því leyti að notendur fengu spurningakönnun fyrir fundinn þar sem þeir gátu veitt endurgjöf og komið með ábendingar. Niðurstöður voru síðan kynntar á fundinum sjálfum og fóru fram umræður í kjölfarið. Þetta form kom vel út og til stendur að halda fleiri rafræna notendafundi á árinu 2021.

Þá var fréttabréf sent út á miðju ári um framgang helstu umbótahugmynda sem fram höfðu komið á notendafundum ársins 2019 þannig að notendur gætu fylgst með framgangi verkefnanna.

Nánar má lesa um notendasamstarf Hagstofunnar á vefsíðu stofnunarinnar um Samstarf við notendur.

Ráðgjafanefndir og faghópar

Hagstofan á einnig í samtali við hópa sérfræðinga um afmörkuð málefni svo sem ýmsa aðferðafræði eða um afmörkuð málefnasvið eins og verðvísitölur. Á þessum vettvangi getur Hagstofan leitað ráða hjá færustu sérfræðingum varðandi ýmis málefni og fengið rýni á hin ýmsu álitaefni við hagtölugerð. Fundað var í öllum ráðgjafanefndum og faghópum Hagstofunnar á árinu nema ráðgjafanefnd um aðferðafræði en hún var endurskipuð á árinu.

Rannsóknasamstarf

Á árinu afgreiddi rannsóknaþjónusta Hagstofu Íslands sex nýjar umsóknir að örgögnum og eru tvær aðrar enn í vinnslu. Þá voru fjögur rannsóknasamstarfsverkefni í gangi á árinu sem öll voru unnin á sviði félagsmálatölfræði.

Hagstofan vann áfram að rannsóknaverkefni um neyslu heimilanna og neysluhegðun í samstarfi við hagfræðingana Emi Nakamura, Jón Steinsson og Jósef Sigurðsson.

Einn meistaranemi vann lokaverkefni samkvæmt samstarfssamningi Hagstofunnar og félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og enn fremur hófst rannsóknasamstarf Hagstofunnar og Félagsvísindastofnunar um rannsókn á áhrifum jafnlaunavottunar á launamun kynjanna í lok ársins.

Þá var unnið að aðferðfræðilegum lausnum varðandi birtingu manntalsgagna komandi manntals í samstarfi við Byggðastofnun í tengslum við styrk þess efnis frá Eurostat.

 
Violeta Calian, stjórnsýsla og samstarf.

Violeta Calian, stjórnsýsla og samstarf.

Sigurjón Leifsson, stjórnsýsla og samstarf.

Sigurjón Leifsson, stjórnsýsla og samstarf.

 
 

Aukin ánægja með Hagstofu Íslands

Fimmta notendakönnun Hagstofu Íslands var gerð í nóvember og desember 2020. Áður höfðu notendakannanir verið lagðar fyrir árin 2009, 2013, 2015 og 2017.

Meginmarkmið könnunarinnar var að kanna hug notenda til stofnunarinnar og mat þeirra á gæðum opinberra íslenskra hagtalna. Ánægjumæling ársins 2020 var sú hæsta frá því að mælingar á ánægju notenda Hagstofunnar hófust árið 2009 eins og sést á myndinni.

Ánægja notenda var mæld á tvo vegu, annars vegar var mæld ánægja með hagtölur Hagstofunnar og hins vegar var mæld ánægja með þá þjónustu sem stofnunin veitir. Mikill meirihluti svarenda var ánægður með hagtölur Hagstofunnar en 82% voru nokkuð eða mjög ánægðir með þær. Þegar kom að þjónustunni voru 72% nokkuð eða mjög ánægðir með þjónustuna.

 

Ánægja með útgefnar hagtölur Hagstofu Íslands árið 2020

Ánægja með þjónustu Hagstofu Íslands árið 2020

Ánægja notenda með hagtölur Hagstofu Íslands 2009-2020