Miðlun

 
 
Hjörtur Jónas Guðmundsson, sérfræðingur samskipta og miðlunar

Hjörtur Jónas Guðmundsson, sérfræðingur samskipta og miðlunar

Hagstofa Íslands gefur út fréttatilkynningar nær daglega. Fréttatilkynningar geta fylgt uppfærslu á töflum en einnig útgáfu Hagtíðinda eða öðru fréttatengdu efni frá stofnuninni. Í svo til öllum tilvikum er fréttatilkynning gefin út bæði á íslensku og ensku. Árið 2020 gaf Hagstofan út 747 fréttatilkynningar, 387 íslenskar og 360 enskar.

 
 
 

Útgáfum fjölgaði

Mikil aukning var í útgáfum á árinu og var hún 13% borið saman við árið á undan. Aukningin í íslenskum útgáfum var þó meiri eða 15%. Útgáfa á tilraunatölfræði hófst í mars og átti hún stóran þátt aukningunni en 42 útgáfur litu dagsins ljós undir þessum efnisflokki. Á myndinni að neðan sést þróunin í íslenskum útgáfum árin 2019 og 2020 eftir mánuðum.

Súlurit með útgáfum eftir mánuðum

 
 
 

Vefur

Vefur Hagstofunnar, hagstofa.is, er helsti samskiptamiðill stofnunarinnar. Fjöldi notenda jókst um tæp 6% á árinu, úr 296.230 í 312.728, og er það í fyrst skiptið sem fjöldi notenda nær 300.000. Notendum fjölgaði því um 16.500 á milli ára eins og sést á myndinni að neðan.

Línurit með fjölda notenda á vef 2018-2020

 
 
 

Vinsælustu síðurnar

Árið 2020 var sem fyrr mest aðsókn að síðunni um helstu vísitölur að forsíðunni frátaldri. Hér að neðan má sjá tíu vinsælustu síðurnar á vef Hagstofunnar.

  1. Helstu vísitölu

  2. Hve margir heita?

  3. Vísitala neysluverðs

  4. Yfirlit mannfjölda

  5. Sveitarfélög og byggðarkjarnar

  6. Verðlagsreiknivél

  7. Vísitölur launa

  8. Útgáfur

  9. Vöruviðskipti

  10. Landsframleiðsla

 
 
 

Fréttaáskrift

Notendur geta gerst áskrifendur að einstökum efnisflokkum Hagstofunnar og fengið tilkynningar með tölvupósti þegar nýjar fréttatilkynningar eru gefnar út. Fjöldi áskrifenda í lok ársins var 1.135 og hafði þeim fjölgað um rúm 16% á árinu.

 
 
 

Samfélagsmiðlar

Mest notaði samfélagsmiðillinn á Íslandi er Facebook. Hagstofan er því virk á þeim vettvangi til þess að auka sýnileika sinn og efla samfélagslega virkni. Hagstofan birti 210 innslög á Facebooksíðu stofnunarinnar á árinu en þau voru 146 árið á undan sem er 44% fjölgun á milli ára. Áherslan var sem fyrr á vandað og fjölbreytt efni til þess að ná til sem flestra. Í lok ársins voru fylgjendur á síðu Hagstofunnar orðnir 1.156 en voru 1.028 í lok síðasta árs. Hagstofan miðlar einnig efni á Twitter og er það gert bæði á íslensku og ensku. Á íslensku Twitter-síðunni voru birt 198 innslög og 167 á ensku síðunni.

 
 
 

Fréttir um efni Hagstofunnar

Íslenskir fjölmiðlar voru sem fyrr duglegir að miðla fréttatilkynningum Hagstofunnar áfram til lesenda sinna, hlustenda og áhorfenda. Athyglisvert er í því ljósi að Hagstofan gaf út samtals 387 íslenskar fréttatilkynningar og uppfærslur á síðasta ári sem innlendir fjölmiðlar gerðu 2.170 fréttir um. Hér er því um margföldunaráhrif að ræða sem eykur enn frekar áhugann á því sem Hagstofan sendir frá sér.

Súlurit með öllu fréttum

 
 
 

Útgáfa myndbanda

Hagstofan sendi frá sér tvö myndbönd á árinu sem var dreift á vef stofnunarinnar, Twitter, Facebook og Youtube.

Fyrra myndabandið var gefið út í tilefni af evrópska tölfræðideginum þann 21. október. Myndbandið fjallaði um áhrif kórónuveirunnar á íslenskt samfélag og efnahag. Á milli jóla og nýárs var svo birtur annáll þar sem farið var yfir helstu þróun í hagtölum á árinu. Myndbandið vakti mikla athygli og sáu um 35 þúsund manns það á Facebook.

 
 

Upplýsingaþjónusta

Starfsfólk samskipta- og miðlunardeildar svarar fyrirspurnum og leiðbeinir notendum um vef Hagstofunnar. Erindum frá notendum fer fjölgandi með ári hverju.

Hægt er að hafa samband við upplýsingaþjónustuna á ýmsa vegu en langoftast berast fyrirspurnir í gegnum síma, með tölvupósti eða í gegnum vefform.